Monday, February 14, 2011

17 dagar í brottför


Nú eru nemendur farnir að verða ansi fróðir um allt mögulegt og ómögulegt varðandi París og sérhæfingin er mikil. Nemendur vinna núna í pörum og hvert par kynnir sér mjög nákvæmlega 2 stjórnsýsluhverfi. Auk þeirra 20 sem París samanstendur af, er tekið fyrir La Défense hverfið (nútímalegt viðskiptahverfi rétt vestur af borginni) og stóru eyjurnar tvær (Île de la Cité og Île Saint-Louis) eru einnig teknar fyrir sérstaklega.
Við kynntum okkur öðruvísi kort af hverfunum í París áður en vinnan hófst og vakti það almenna kátínu. Rétt eins og viss hverfi Reykjavíkur hafa á sér ákveðið orð (nemendur t.d. voru á því að í Hlíðunum sé mikið um aldrað fólk, í vesturbænum sé skemmtilegt fólk og 101 er orðið þekkt fyrir að vera griðarstaður lattelepjandi listamanna) þá hafa mismunandi hlutar Parísar visst orðspor. Kortið má sjá hér í færslunni og þeir sem vilja kynna sér þetta betur geta grennslast fyrir um það hjá verðandi Parísarförum.

Tuesday, February 8, 2011

23 dagar til brottfarar


Nú eru margir orðnir spenntir í hópnum og sumir jafnvel farnir að telja dagana til brottfarar en þeir eru aðeins 23.
Undanfarið hafa nemendur kynnt sér margt og mikið um París, t.d. um samgöngur í borginni, atvinnulífið og daglegt líf Parísarbúa. Sagan um nornina í Mouffetard götu var lesin því að sjálfsögðu ætlum við að skoða þá frægu götu.
Margrét Helga (fyrrum kórstjóri) sá svo um að kynna fyrir nemendum nokkur Parísarlög sem gleðja alla, ekki síst þá söngelsku. Nú kunna nemendur nokkur grípandi viðlög, t.d. úr Parísarlögunum hans Joe Dassin, La complainte de l'heure de pointe (http://www.youtube.com/watch?v=tpS0nC7rqhs) og Champs-Elysées (http://www.youtube.com/watch?v=z6jkmSbM98s) og verða þau örugglega sungin hástöfum af hópnum í ferðinni!
Næstu kennslustundir snúast um hverfin í París og munu nemendur þá uppgötva margt og mikið um borgina.
Eins og sumir vita kannski eru stjórnsýsluhverfi Parísar 20 talsins og í borginni eru því alls 21 borgarstjórar. Hverfin liggja eins og kuðungur, það fyrsta í miðjunni og raðast svo í kring eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.
Meira síðar...