
Nú eru nemendur farnir að verða ansi fróðir um allt mögulegt og ómögulegt varðandi París og sérhæfingin er mikil. Nemendur vinna núna í pörum og hvert par kynnir sér mjög nákvæmlega 2 stjórnsýsluhverfi. Auk þeirra 20 sem París samanstendur af, er tekið fyrir La Défense hverfið (nútímalegt viðskiptahverfi rétt vestur af borginni) og stóru eyjurnar tvær (Île de la Cité og Île Saint-Louis) eru einnig teknar fyrir sérstaklega.
Við kynntum okkur öðruvísi kort af hverfunum í París áður en vinnan hófst og vakti það almenna kátínu. Rétt eins og viss hverfi Reykjavíkur hafa á sér ákveðið orð (nemendur t.d. voru á því að í Hlíðunum sé mikið um aldrað fólk, í vesturbænum sé skemmtilegt fólk og 101 er orðið þekkt fyrir að vera griðarstaður lattelepjandi listamanna) þá hafa mismunandi hlutar Parísar visst orðspor. Kortið má sjá hér í færslunni og þeir sem vilja kynna sér þetta betur geta grennslast fyrir um það hjá verðandi Parísarförum.
