






Jæja, þá er ferðinni lokið og við kennararnir erum báðar mjög ánægðar með ferðina og hópinn sem var til fyrirmyndar í alla staði.
Lokakvöldverðurinn var upplifun því hann fór fram á goðsagnarkenndum veitingastað, Le Chartier (http://www.restoaparis.com/fiche-restaurant-paris/chartier.html). Þar var ekki rólegheitunum fyrir að fara, ys og þys og þjónarnir á hlaupum á milli borða. Á staðnum er víst pláss fyrir 360 gesti og var hvert sæti setið. Við vorum heppin að þurfa ekki bíða lengi eftir sæti því ekki er hægt að panta borð á staðnum. Maturinn er í ódýrara kantinum og gæðin ekki þau mestu sem hægt er að fá en stemningin bætir það upp og rúmlega það. Nemendur fengu sér sumir snigla og pylsur í forrétt og í aðalrétt smökkuðu sumir andalæri (uppáhald Jóhönnu kennara) en aðrir ákváðu að taka ekki sénsinn og fá sér nautasteik eða kjúkling og franskar. Allir fengu sér eftirrétt.
Eftir kvöldverðinn var haldið á gistiheimilið þar sem flestir byrjuðu að pakka niður.
Ferðin út á völl daginn eftir gekk eins og í sögu og flugið gekk vel fyrir utan smá tafir í lendingunni vegna vetrarveðurs á Íslandi. Áttu Parísarfarar dálítið erfitt með að sætta sig við kuldalega heimkomu eftir vorveðrið í París.
Þetta var góð Parísarferð, góður hópur, gott veður og ánægjulegar samverustundir.
Við Margrét Helga þökkum fyrir okkur og kveðjum með nokkrum myndum. Við munum vonandi svo bæta við einhverju efni frá nemendum þegar líður á mánuðinn.
Jóhanna